Skilmálar þessir taka til notkunar á Hugbúnaði Unimaze ehf. sem nefnist „Skeytamiðlun Unimaze“, á milli Rekstraraðila, Þjónustuaðila og Endanotanda, samkvæmt sérstökum samningum þar um. Skilmálar þessir taka bæði til Þjónustuaðila og Endanotanda, eftir því sem við á.
Skilmálarnir taka gildi um leið og þeir hafa verið samþykktir eða um leið og Endanotandi nýtir sér hugbúnaðinn s.s. með beinni innskráningu á vef Unimaze ehf. eða með beintengingu þar sem Rafrænum skjölum er miðlað til eða frá Viðskiptahugbúnaði.
Þjónustuaðili skuldbindur sig til þess að veita Endanotenda Fyrsta stigs þjónustu. Á sama tíma lofar Endanotandi í einu og öllu að haga notkun sinni á Hugbúnaðinum í samræmi við skilmála þessa.
Skilgreiningar
Rekstraraðili er Unimaze ehf.
Þjónustuaðili er annað hvort Unimaze ehf., þegar Unimaze á í beinu viðskiptasambandi við Endanotanda eða samstarfsaðili Unimaze ehf., sem þjónustar Viðskiptahugbúnað Endanotanda.
Endanotandi er notandi að Hugbúnaðinum og Viðskiptahugbúnaði sem Endursöluaðili selur honum og þjónustar.
Hugbúnaðurinn er hugbúnaðarlausn, þróuð og rekin af Rekstraraðila, aðgengileg á netinu (SaaS – Software as a Service), nokkurs konar rafræn viðskiptamiðstöð (e. Business Hub), notuð til meðhöndlunar, úrvinnslu og dreifingu á rafrænum skjölum.
Viðskiptahugbúnaður er sú hugbúnaðarlausn sem Endanotandi notar til að eiga samskipti við Hugbúnaðinn, t.d. bókhaldskerfi, samkvæmt samningi þar um við Þjónustuaðila.
Rafrænt skeyti inniheldur eitt eða fleiri skjöl, sem geta verið: a) Viðskiptaskjal, b) Almennt skjal eða viðhengi.
Fyrsta stigs þjónusta er sú þjónusta sem Endursöluaðili veitir Endanotanda.
Annars stigs þjónusta er sú þjónusta sem Rekstraraðili veitir Endursöluaðila.
Viðmótsþjónusta er sú virkni Hugbúnaðarins sem Endanotendur nýta í gegnum skilgreind viðmót frá Viðskiptahugbúnaði sínum til að miðla rafrænum skeytum og hverju öðru sem þeim tengist.
Skjal (rafrænt) er viðhengi innan skeytisins, sem á sér beina tilvísun í skjal sem hægt er að vista á diski í tölvu. Skjöl innan viðskiptamiðstöðvarinnar geta verið af tvennum toga:
· Viðskiptaskjal, er skjal sem uppfyllir eina af þeim formgerðum sem Hugbúnaðurinn skilgreinir sem viðskiptaskjal. Slík skjöl fá sérstaka meðhöndlun í Hugbúnaðinum til að tryggja að gæði þeirra uppfylli þá alþjóðlegu staðla sem formgerðin vísar til og til að Endanotendur fái hámarks hagræði út úr innleiðingu rafrænna viðskipta.
· Almennt skjal, er skjal sem ekki tilheyrir þeim formgerðum sem Hugbúnaðurinn skilgreinir. Engin takmörkun er á gerð eða sniði þessara skjala, nema Hugbúnaðurinn heimilar ekki miðlun skjala sem í eðli sínu geta verið harmleg, sem gætu verið en takmarkast þó ekki við keyrsluskrár og fjölva.
Formgerð er lýsing á uppbyggingu tölvutæks skjals samkvæmt eXtensible Markup Language (XML), JSON eða sambærilegum hætti. Notkun á skjali sem uppfyllir tiltekna formgerð er jafngild nýtingu formgerðarinnar sjálfrar.
Eitt rafrænt skeyti inniheldur að lágmarki eitt viðskiptaskjal eða eitt almennt skjal, en aldrei fleiri en eitt viðskiptaskjal.
Auðgun skjala eru þær viðbætur sem gerðar eru á skjali af hálfu endanotanda með aðstoð Hugbúnaðarins.
Hlutverk aðila
Endanotandi er notandi að Hugbúnaðinum og Viðskiptahugbúnaði sem Þjónustuaðili sér um fyrir hans hönd.
Þjónustuaðili sér um fyrsta stig þjónustunnar gagnvart Endanotanda og á í viðskiptasambandi við Endanotanda. Þjónustuaðili ber ábyrgð á þjónustu gagnvart Endanotanda og samskiptum Viðskiptahugbúnaðar við Hugbúnaðinn, þ.m.t. rafræna framsetningu (tölvutæk Formgerð) Viðskiptaskjala.
Rekstraraðili sér um þróun og rekstur Hugbúnaðarins, ber ábyrgð á virkni og rekstrartíma hans og uppsetningu gagnvart Þjónustuaðila. Rekstraraðili sér einnig um þjónustu við Þjónustuaðila vegna þjónustubeiðna sem sá síðarnefndi getur ekki leyst úr sjálfur gagnvart Endanotanda.
Rekstraraðili er ráðgefandi gagnvart Þjónustuaðila til að tryggja að uppfylltar séu kröfur um upprunavottun, gagnaöryggi, rekjanleika og aðra þætti rafrænna viðskipta.
Þjónustulýsing
Aðgangur að Hugbúnaðinum
Aðgangur Endanotanda er veittur að Hugbúnaðinum m.a. í gegnum vefviðmót og vefþjónustur. Aðgangi er stýrt með aðgangsorðum um öruggt þjónustulag, rafrænum skilríkjum eða annarri auðkenningartækni sem Rekstraraðili metur að uppfyllir öryggiskröfur Hugbúnaðarins á hverjum tíma.
Við upphaf samnings fær Þjónustuaðili aðgang að Hugbúnaðinum til að þjónusta Endanotanda.
Við upphaf samnings fær Endanotandi aðgang til að nýta Hugbúnaðinn.
Rekstraraðili áskilur sér rétt til að loka fyrir aðgang Endanotanda sem á einhvern hátt notar Hugbúnaðinn á óeðlilegan hátt þ.a. það raski eðlilegri virkni Hugbúnaðarins, öryggi, upplýsingavernd eða starfsskilyrðum þeirra aðila sem nota Hugbúnaðinn.
Sending og móttaka Rafrænna skeyta
Endanotandi getur sent Rafræn skeyti um Hugbúnaðinn til annarra lögaðila, sem skráðir eru notendur Hugbúnaðarins, hvort heldur sem þeir eru tengdir honum beint eða Skjölum miðlað til þeirra. Endanotandi ber ábyrgð á því að Skjölin séu rétt árituð þannig að þau skili sér til réttra aðila og að senda eingöngu Rafræn skeyti til aðila sem hann á viðskiptasambandi við. Þar sem það á við, þarf Endanotandi að tilgreina tölvupóstfang móttakanda sem varaleið til afhendingar skeytis (e. fallback).
Endanotandi móttekur Rafræn skeyti um Hugbúnaðinn frá öðrum lögaðilum, sem miðla Skjölum beint eða óbeint í gegnum Hugbúnaðinn. Með notkun á Hugbúnaðinum er skráð hvers konar Formgerðum Endanotandi tekur á móti.
Öll Skjöl í Rafrænum skeytum, sem falla undir skilgreiningu Hugbúnaðarins sem Viðskiptaskjal, eru sannreynd til að tryggja að innihald og framsetning Skjalanna uppfylli gæðakröfur Formgerðarinnar. Þetta er gert til að lágmarka kostnað sem annars færi í vandamálagreiningu og til að uppfylla sérstakar kröfur sem Endanotendur gera um innihald Skjalanna við móttöku. Endanotandi getur valið um hvort innsend Skjöl sem falla á sannreyningu verði gerð tilbúin til innlestrar eða að einungis sé gert viðvart um slík Rafræn skeyti. Endanotandi á þess kost að skoða aðvaranir og villur og meta hvort Skjalið sé bókanlegt í Viðskiptahugbúnaðinn.
Önnur skjöl, sem annað hvort standa sjálfstæð innan Rafræns skeytis eða sem viðhengi við Viðskiptaskjöl teljast Almenn skjöl samkvæmt skilgreiningu Hugbúnaðarins.
Rekstraraðili ber ekki ábyrgð á innihaldi Skjala, en tryggir að Skjalið skili sér óbreytt frá sendanda til móttakanda frá því það kemur inn í Hugbúnaðinn og þar til því er skilað út úr honum. Sé ekki hægt að ráða af sniði Skjalsins, hver Formgerð þess er, þá er það á ábyrgð sendanda eða þess aðila sem kom skeytinu inn í Hugbúnaðinn að tryggja að utanáskrift Rafræna skeytisins geymi nægjanlegar upplýsingar fyrir úrvinnslu Skjalsins hjá móttakanda.
Í undantekningartilvikum er unnt að formbreyta Skjölum, en þá er upprunalega Skjalið aðgengilegt í Hugbúnaðinum.
Formbreyting getur einnig átt sér stað við flutning til og frá Hugbúnaðinum, en þá teljast frumgögn í skilningi reglugerðar nr. 505/2013 þau gögn sem vistuð eru í Hugbúnaðinum.
Endanotandi getur notað Hugbúnaðinn til þess að Auðga skjöl, allt eftir því hvers konar virkni Hugbúnaðurinn býður upp á hverju sinni. Upprunalega Skjalið verður þó aðgengilegt í Hugbúnaðinum.
Gagnageymsla
Hugbúnaðurinn geymir sjálfkrafa öll Skjöl og viðhengi tengd þeim í 60 daga. Að þeim tíma liðnum er öllum sendum og mótteknum skjölum eytt. Skeytum, sem ekki hafa verið merkt móttekin eða villumerkt og bíða enn ákvörðunar, er ekki eytt á meðan samningstími er í gildi.
Endanotandi getur óskað eftir að skjöl séu geymd í lengri eða skemmri tíma en getið er hér að framan. Ákvæði laga um bókhald geta gert kröfur um að frumgögn séu geymd í tiltekinn árafjölda og að einstaka bókhaldsfærslur vísi til frumgagna. Sé ekki óskað eftir varðveislu frumgagna í lengri tíma en 60 daga, er það Rekstraraðila óviðkomandi og ekki á hans ábyrgð.
Birting
Endanotandi getur kallað fram til birtingar þau Skjöl sem hann óskar eftir í vefviðmóti Hugbúnaðarins og getur Þjónustuaðili útfært fyrir hann uppflettingar úr Viðskiptahugbúnaði Endanotanda til hægðarauka. Unnt er að birta öll Skjöl sem eru til í gagnageymslu hverju sinni.
Trúnaður
Endanotandi, Þjónustuaðili, Rekstraraðili og starfsmenn þeirra skulu gæta þagnarskyldu um hvaðeina sem þeir verða áskynja í starfi sínu varðandi starfsemi hins aðilans og skylt er eða eðlilegt að leynt fari. Þagnarskyldan helst eftir að samningssambandi lýkur.
Aðilar þessa samnings lýsa því yfir og ábyrgjast að þeir og starfsmenn þeirra munu fara með upplýsingar er varða samning þennan og framkvæmd hans sem trúnaðarmál. Trúnaðarskyldan helst eftir að samningssambandið lýkur.
Samningur þessi, sem og öll þjónusta og rekstur þeirra sem tengjast honum varða mikilvæga viðskiptahagsmuni og eru allar slíkar upplýsingar því trúnaðarmál milli aðila. Þar sem viðskiptahagsmunir og upplýsingar varða einnig Rekstraraðila, ber Endanotandi einnig trúnaðarskyldu gagnvart honum.
Persónuvernd og upplýsingavernd
Endanotandi er ábyrgðaraðili en Rekstraraðili og Þjónustuaðili eru úrvinnsluaðilar þeirra persónu- og atvinnugreinanlegra upplýsinga sem Rafræn skeyti frá Endanotanda innihalda og fara um Hugbúnaðinn.
Skilmálar þessir gegna meðal annars hlutverki vinnslusamnings í samræmi við lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Úrvinnsluaðilum er skylt að vinna þessar upplýsingar í samræmi við efni samnings þessa og fyrirmæli Endanotanda.
Þjónustuaðila og Rekstraraðila getur verið nauðsynlegt að vinna með þær upplýsingar sem fara um Hugbúnaðinn, til að gegna hlutverki sínu og til að tryggja eðlilegan rekstur Hugbúnaðarins og er þá aðgangur takmarkaður við þá starfsmenn þessara aðila sem aðganginn þurfa. Auk þess er Rekstraraðila heimilt að miðla upplýsingum, sem rafræn skeyti innihalda, til 1) viðtakenda skeytanna og annarra aðila sem nauðsynlegt er að fái gögnin til úrvinnslu til að sinna þjónustu tengdri Hugbúnaðinum fyrir Endanotandann og 2) til aðila sem Rekstraraðila er á hverjum tíma skylt að veita aðgang að skeytunum á grundvelli laga, dómsúrskurðar eða ákvörðunar þar til bærra yfirvalda.
Rekstraraðili og Þjónustuaðili skulu tryggja að öryggi persónuupplýsinga verði í samræmi við gildandi lög og reglugerðir sem lúta að persónuvernd á hverjum tíma.
Hugverkaréttindi
Hugbúnaðurinn er alfarið eigu Rekstraraðila sem einnig sér alfarið um þróun hans. Hugbúnaðurinn, gagnagrunnar, búnaður og tengd gögn, í núverandi mynd og í þeirri mynd sem þau kunna að vera í framtíðinni eru alfarið eign Rekstraraðila, þ.m.t. notkunarleiðbeiningar, formgerðalýsingar skjala, kynningar- og kennsluefni, sem og verklag og vinnubrögð sem Endanotanda eða starfsmönnum hans verða kynnt. Rekstraraðili á einn hugverkarétt, þar með talinn höfundarrétt á öllum slíkum gögnum, búnaði og efni.
Samkvæmt skilmálum þessum öðlast hvorki Endanotandi né aðrir höfundarrétt eða annan hugverkarétt að öllu framangreindu, né öðrum hugbúnaði eða hugverkum sem tengjast eða kunna að tengjast öllu framangreindu, þar með taldar hverjar þær séraðlaganir, sérsmíði eða önnur ný hugverk, hvort sem slíkar breytingar eða viðbætur voru gerðar að frumkvæði Endanotanda eða af öðrum sökum.
Rekstraraðili veitir Endanotanda afmarkað leyfi til notkunar þessa búnaðar eftir því sem nánar er kveðið á um í samningum milli Þjónustuaðila, Rekstaraðila og Endanotanda. Notkunarleyfi þetta fellur að fullu og öllu leyti niður um leið og samningarnir falla úr gildi.
Notkunarleyfið veitir einnig þriðju aðilum, sem móttakendum Rafrænna skeyta frá Endanotanda, heimild til að lesa úr hugverkavörðum Formgerðum sem Endanotandi hefur nýtt sér samkvæmt samningnum, en veitir þessum sama þriðja aðila ekki sjálfkrafa leyfi til að útbúa Rafræn skeyti byggð á þeim Formgerðum eða móttaka slíkt frá öðrum þriðja aðila sem ekki hefur undirgengist skilmála þessa.
Unimaze er skráð vörumerki Rekstraraðila. Endanotandi viðurkennir rétt Rekstraraðila til vörumerkisins. Rekstraraðili áskilur sér rétt til allra annarra vörumerkja og/eða þjónustumerkja sem notuð eru af Rekstraraðila í hugbúnaðarlausnum og vefsvæðum og öðru framsettu efni Rekstraraðila þ.m.t. en ekki bundið við handbækur. Endanotanda ber skylda til að virða vörumerkjaréttindin, verja þau og tilkynna um möguleg brot á vörumerkjaverndinni ef hann verður uppvís að broti.
Framsal og undirverktaka
Hvorki Þjónustuaðila né Endanotanda er heimilt að framselja réttindi sín og skyldur án skriflegs samþykkis Rekstraraðila fyrir slíku framsali. Ef til framsals kemur skal tryggt að geta framsalshafa til þess að efna samningaskuldbindingar sé ekki síðri en framseljanda.
Þjónustuaðila er óheimilt að fela öðrum aðila að annast fyrir sína hönd tiltekna afmarkaða þætti samningsins. Ef fallist er á slíka undirverktöku þá ber Þjónustuaðili engu að síður endanlega ábyrgð á efndum samningsins gagnvart Endanotanda.
Vanefndir og vanefndarúrræði
Ef Endanotandi brýtur gegn skilmálum þessum og samningi sínum við Þjónustuaðila og bætir ekki úr vanefnd sinni innan 30 daga frá sendingu skriflegrar aðvörunar, hefur Rekstraraðili rétt á að loka fyrir aðgang hans að Hugbúnaðinum. Sama gildir ef reikningur til Endanotanda vegna notkunar á Hugbúnaðinum eða þjónustu tengdri honum er enn ógreiddur 30 dögum eftir eindaga en þá hefur Þjónustuaðili rétt á að óska eftir að Rekstraraðili loki aðgangi Endanotanda. Lokun samkvæmt framansögðu jafngildir riftun og komi til hennar af þessum ástæðum tekur hún gildi án fyrirvara. Þó skulu samningsaðilar leitast við að finna leiðir til að draga riftunina til baka og halda áfram þjónustu.
Ef brot Endanotanda er með þeim hætti að það hefur áhrif á virkni Hugbúnaðarins eða getur valdið öðrum notendum röskun eða tjóni, getur aðgangi verið lokað tafarlaust til að fyrirbyggja frekari röskun þar til leyst hefur verið úr þeim málum sem valda röskuninni. Endanotandi ber alla ábyrgð á því tjóni sem hann eða aðrir kunna að verða fyrir vegna framangreindrar lokunar, þar á meðal tjóni sem Þjónustuaðili eða Rekstraraðili hefðu að öðrum kosti verið taldir bera ábyrgð á.
Ábyrgð og takmörkun bótaábyrgðar
Endanotandi gerir sér grein fyrir að Hugbúnaðurinn er ekki villulaus og að í honum kunna að vera minniháttar gallar. Slíkir gallar, sem ekki trufla starfsemi Hugbúnaðarins eða virkni hans á alvarlegan hátt eða í verulegan tíma, fela ekki í sér vanefnd af hálfu Rekstraraðila.
Rekstraraðili ábyrgist gagnvart Endanotanda að hafa fulla ráðstöfunarheimild yfir Hugbúnaðinum og þeirri þjónustu sem honum tengist og veitir Þjónustuaðila fullnægjandi aðgang til að geta sinnt þjónustuhlutverki sínu gagnvart Endanotanda. Rekstraraðili ber hins vegar enga ábyrgð á göllum eða bilunum, hverju nafni sem slíkt nefnist, í hugbúnaði, vélbúnaði, netkerfum eða öðru sem lagt er til af Endanotanda, Þjónustuaðila eða þriðja aðila.
Endanotandi ábyrgist gagnvart Rekstraraðila og Þjónustuaðila að hann hefur fulla ráðstöfunarheimild yfir þeim Rafrænu skeytum sem Hugbúnaðurinn meðhöndlar. Endanotandi ber ábyrgð gagnvart Rekstraraðila á hverjum þeim afleiðingum sem verða af annarri notkun Endanotanda á Hugbúnaðinum en þeirri sem er í samræmi við samning Endanotanda við Þjónustuaðila og skilmála þessa og telja verður eðlilega og sanngjarna. Endanotandi skuldbindur sig til að halda Rekstraraðila skaðlausum af hverjum þeim kröfum sem beint er að Endanotandanum og tengjast Rafrænum skeytum hans.
Bótaábyrgð Rekstraraðila er bundin því skilyrði að beint og ótvírætt tjón Endanotanda megi rekja til ásetnings eða stórkostlegs gáleysis Rekstraraðila. Rekstraraðili og Þjónustuaðili bera enga ábyrgð á tjóni Endanotanda eða annarra aðila honum tengdum, sem verður til við að utanaðkomandi aðilar komast yfir aðgang Endanotanda að Hugbúnaðinum eða öðrum kerfum, eða upplýsingum úr slíkum kerfum. Fjárhæð bóta í tilviki bótaskyldu skal takmarkast við beint tjón og skal þó aldrei vera hærra en það verð sem Endanotandi greiddi fyrir flutning þess Rafræna skeytis sem þar um ræðir.
Um ábyrgð Rekstraraðila og Þjónustuaðila sem milligönguaðila í rafrænum viðskiptum gilda ákvæði laga um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu, nú V. kafli laga nr. 30/2002.
Force majeure
Hvorki Þjónustuaðili né Rekstraraðili bera ábyrgð á því tjóni Endanotenda sem rakið verður til ytri atvika eða atburða sem þeir hafa ekki eða geta ekki haft stjórn á, svo sem en ekki tæmandi talið; vélar- eða hugbúnaðarbilana, truflana í síma- og fjarskiptanetum, rafmagnstruflana, verkfalla, farsótta, eldsvoða, ófriðar, náttúruhamfara og stjórnvaldsfyrirmæla.
Lögsaga, varnarþing og breytingar
Rekstraraðili hefur rétt til að gera einhliða breytingar á skilmálum þessum og skulu slíkar breytingar tilkynntar með sannanlegum hætti með minnst mánaðar fyrirvara.
Um túlkun á þessum skilmálum og um samningssamband Rekstraraðila, Þjónustuaðila og Endanotanda gilda íslensk lög.
Rísi ágreiningur vegna samninga aðila skal dómsmál um slíkan ágreining rekið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.