Unimaze hefur samið við Payday
Payday, sprækasta bókhaldskerfi landsins, hefur samið við Unimaze um sendingu og móttöku rafrænna reikninga fyrir viðskiptavini sína.
Unimaze, áður Sendill, hefur ríflega 10 ára reynslu í skeytamiðlun hérlendis en er jafnframt með viðskiptavini um heim allan og starfsstöðvar í þremur Evrópulöndum. Um 300 viðskiptavinir Payday nýta sér í dag skeytamiðlun Unimaze og hefur þeim farið hratt fjölgandi frá því að samstarf fyrirtækjanna hófst.
Rafrænir reikningar eru í dag mikilvægur hluti í viðskiptum milli aðila þar sem upplýsingar skila sér hratt á milli kerfa, villuhætta minnkar, fjárstreymi verður skilvirkara og hagræðingin þar með ótvíræð.
„Við völdum Unimaze af því að félagið hefur verið í fararbroddi þegar kemur að stöðlum, áreiðanleika og tæknilegum lausnum. Unimaze er leiðandi fyrirtæki á sínu sviði hvað varðar sendingu og móttöku rafrænna viðskiptaskjala. Fyrirtækið hefur verið í stöðugri sókn og á undanförnum tveimur árum hefur starfsemi þess vaxið um eða yfir 100%. Sýn Payday og Uminaze á markaðinn er á margan hátt sú sama en bæði fyrirtækin leggja áherslu á framúrskarandi tæknilausnir og góða þjónustu.“ segir Björn Hr. Björnsson framkvæmdastjóri Payday.
„Við erum ákaflega stollt af því að vera treyst fyrir því mikilvæga verkefni að tryggja notendum Payday alla nýjustu og helstu möguleika sem fyrir hendi eru hverju sinni til að njóta alls þess hagræðis sem í boði er við færslu bókhalds í dag. Þekking og reynsla Unimaze og vilji til að skara fram úr það sem tryggir í þessu tilviki okkur samstarf við eitt nýjasta og mest vaxandi bókhaldskerfi landsins. Þetta er mikill heiður fyrir okkar starf og mikil hvatning fyrir okkur að halda áfram á sömu braut. Það hefur verið sérlega gaman að vinna með Payday enda er nálgun þeirra framsækin þar sem öll áhersla er á sjálfvirkni sem fellur algjörlega að sýn Unimaze á veröldina“, segir Einar Geir Jónsson, framkvæmdastjóri Unimaze.
Payday einfaldar reikningagerð, launagreiðslur, kröfustofnun, bókhald og skil á opinberum gjöldum fyrir sjálfstætt starfandi einstaklinga, lítil og meðalstór fyrirtæki. Markmið okkar frá upphafi hefur verið að einfalda reksturinn fyrir sjálfstætt starfandi einstaklinga og lítil og meðalstór fyrirtæki.
Unimaze er leiðandi fyrirtæki á sínu sviði sem býður upp á að senda og móttaka rafræn viðskiptaskjöl, svo sem reikninga, pantanir, greiðslukvittanir og fleira. Félagið leggur sig fram við að vera í fararbroddi þegar kemur að stöðlum, áreiðanleika og tæknilegum lausnum, svo sem sannreyningu, vottun og örugga auðkenningu. Unimaze er með starfstöðvar í þremur Evrópulöndum og viðskiptavini um allan heim. Fyrirtækið hefur vaxið um eða yfir 100% síðastliðin 2 ár, í tekjum starfsmönnum og magni.